Algengar spurningar?
Hvaða úrbætur get ég skráð?
Það er margt sem íbúar geta gert sjálfir en annað sem þeir geta hvatt fyrirtæki eða sveitarfélög til að framkvæma. Ef þú upplifir svæði á Austurlandi, þar sem vantar að bæta ásýnd eða laga umhverfi, bendum við þér á að skrá tillögu að úrbótum hér fyrir neðan. Dæmi um úrbætur gætu verið hallandi skilti, ónýtir kantsteinar, brotnar hellur og/eða að það vanti ruslafötur á völd svæði.
Þarf ég að taka þátt í skipulagðri göngu til að skrá úrbót?
Nei, þú getur skráð úrbætur undir Skrá úrbót hér á vefnum (efst á síðunni) hvenær sem er.
Hver ber ábyrgð á úrbótum?
Það getur verið mismunandi. Til dæmis er skilti með röngum upplýsingum á þjóðvegi á ábyrgð Vegagerðarinnar. Ónýtir kantsteinar og brotnar hellur eru oftast á ábyrgð sveitarfélaga. Rusl og úrgangur er oftast á ábyrgð íbúa. Til að mynda er megnið af ruslinu sem safnað er í plokkverkefnum rusl úr tunnum sem fokið hefur frá íbúðarhúsum. Þá geta ýmsir verktakar verið ábyrgir fyrir ákveðnum úrbótum en ef ekki er vitað hver ber ábyrgð er hægt að skila auðum reit við skráningu á tillögunni.
Má ég benda á íbúðarhús og óska eftir úrbótum?
Þú getur sent inn tillögu að úrbót varðandi íbúðarhúsnæði en við munum styðjast við samþykkt sveitarfélaganna á Austurlandi um umgengni og þrifnað utan húss. Athugaðu að ekki munu allar tillögur um úrbætur birtast á vefnum og við fylgjum ávallt lögum um persónuvernd.
Hver er munur á plokkverkefni og úrbótagöngu?
Markmið er hið sama: Að bæta umhverfi og ásýnd. Hugmyndin um úrbótagöngu snýst þó öðru fremur um að benda á það sem þarf að laga. Við mælum samt alltaf með því að úrbótagöngufólk tíni einnig rusl enda er það auðveldasta og ódýrasta leiðin til að bæta ásýnd samfélagsins.